Fundur haldinn hjá framkvæmdastjórn miðvikudaginn 14. maí 2025 kl. 9:00
Mættir:Jóhanna F. Jóhannesdóttir, Hulda Gestsdóttir, Sigurður E. Sigurðsson og Sigurður Þór Sigursteinsson. Ásgeir Ásgeirsson í leyfi.
- Samþykkt síðustu fundagerðar
Fundagerð frá 7. maí lögð fram, yfirfarin og samþykkt.
2. Starfsemin í sumar
a) HRN hélt sameiginlegan fund með öllum stofnunum þann 12. maí varðandi starfsemi stofnana á sumarleyfistíma. Farið var yfir stöðuna á HVE. Búið er að manna að mestu í sumarafleysingu á sjúkrasviði og heilsugæslusviði og að vanda er dregið úr starfsemi eins og hægt er og verkefni færð til. Bráðastarfsemi tryggð. Starfsemi skurðstofu í júlí snýr eingöngu að bráðaaðgerðum.
b) Sannarlega eru einingar sem eru viðkvæmir eins og lyflækningadeild og læknamönnun á heilsugæslunni Borgarnesi.
c) Hjúkrunarheimili eru í miklum vanda með að manna stöðugildi, sérstaklega hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða og ekki verður hægt að hafa legurými á Hvammstanga og Stykkishólmi opin vegna manneklu hjúkrunarfræðinga. Þetta eru alls 6 legurými.
d) Fara þarf í stefnumótun á hjúkrunarsviði í tengslum við þróunarverkefnið Gott að eldast. Framkvæmdastjórn mun funda sérstaklega um málefnið.
3. Áhættumæðravernd
a) Beiðni hefur komið frá sérhæfðri mæðravernd LSH um að HVE sinni konum í áhættumeðgöngu vegna aukins álags á LSH. Frábendingar fyrir fæðingu yrðu óbreyttar og fæðingar yrðu áfram á LSH. Áfram myndi þurfa að senda sumar konur á sérhæfða mæðravernd LSH.
b) Næstu skref er að eiga samtal um möguleikann á að gera þetta að veruleika.
4. Samstarfssamningur hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideildar HÍ og HVE, lagt fram
Endurnýjaður samningur um klínískt starfsnám í hjúkrunar- og ljósmóðurfræði.
5. Kynning á fyrirhuguðu gæðaverkefni á HVE
a) SES kynnti gæðaverkefni sem óskað er eftir að verði á HVE. Um er að ræða prófun á nýju samantektarverkfæri sem er í þróun og byggir á talgreiningu og gervigreind (AI). Markmið þess er að styðja við klínískt starf með því að umbreyta samtölum milli heilbrigðisstarfsfólks og skjólstæðinga í hnitmiðaðar, öruggar og faglegar nótur.
b)Framkvæmdastjórn hefur farið yfir þessa umsókn og verkefnið er samþykkt í 2 mánuði.
Fleira ekki gert og fundi slitið.
Hulda Gestsdóttir ritaði fundargerðina.