Fundur haldinn hjá framkvæmdastjórn, miðvikudaginn 10. september 2025 kl. 9:00.
Mættir: Jóhanna F. Jóhannesdóttir, Hulda Gestsdóttir, Vilborg Lárusdóttir, Sigurður E. Sigurðsson og Ásgeir Ásgeirsson.
Dagskrá.
- Samþykkt síðustu fundargerðar
Fundargerð frá 3. september 2025 lögð fram og samþykkt.
- Fjarmál og rekstur
Fjallað um fjármál og rekstur. Sérstaklega var horft til frumvarps til fjárlaga árið 2026.
JFJ fór yfir yfirlit frumvarps á vef stjórnarráðsins. Þá lagði ÁÁ fram samanburð á frumvarpi 2026 og fjárlögum 2025 m.v. grófa rekstrarspá fyrir árið 2025. Fram kom að hækkun fjárheimilda á milli ára nemi 686 m.kr. en í raun þyrfti minnst 900 m.kr. m.v. rekstrarumfang ársins 2025.
Nánar verður fjallað um málefnið á næsta fundi og m.v. uppfærða rekstrarspá.
- Húsnæðismál.
JFJ fjallaði um breytingar á teikningum vegna Slysadeildar. Þá kom arkitekt í heimsókn á vegum FSR vegna heilsugæslunnar á Akranesi.
Rætt var um erindi starfsmanna Slysa- og göngudeildar varðandi aðtöðu maga- og ristilspeglana. SES fjallaði um fund sinn með læknum vegna málsins. Reynt verður að finna einhverja lausn sem dugar í vetur svo ekki verði algjört rof á þessari þjónustu.
- Gæðaráð HVE
Farið yfir hlutverk gæðaráðs og samsetningu.
Hlutverkið var samþykkt samanber neðangreint.
Gæðaráð mótar og endurskoðar gæðastefnu og gæðamarkmið HVE með reglulegum hætti. Gæðaráð tekur ákvarðanir varðandi rekstur og viðhald gæðastjórnunarkerfisins og samþykkir stefnuskjöl. Það tekur til afgreiðslu og samþykktar tillögu að ársáætlun gæðaúttekta og langtímaúttektaáætlunar. Gæðaráð eflir gæðavitund, mikilvægi framúrskarandi þjónustu og rekstrarlegrar hagkvæmni. Gæðaráð kemur saman eigi sjaldnar en tvisvar á ári og hefur samráð við fagráð HVE.
- Útgáfa ÍST ISO 7101
Fram kom hjá SES að haldinn hafi verið fundur þann 9. september um innleiðingu og kynningu á ISO 7101 staðlinum vegna HVE.
Þar kom fram að stefnt væri að því að Staðlaráð Íslands muni hafa morgunverðarfund þann 23. október þar sem staðall HVE mun verða kynntur.
- Hvítbók um endurhæfingu: Þátttaka í rýnihóp og/eða vinnustofu, lagt fram
Lagt fram erindi frá heilbrigðisráðuneytinu þann 29. ágúst s.l. varðandi Hvítbók um endurhæfingu: Þátttaka í rýnihóp og/eða vinnustað.
Þar kom fram að ráðuneytið vinni nú að gerð hvítbókar um endurhæfingarþjónustu til framtíðar.
Markmið verkefnisins er að móta skýra framtíðarsýn þeirrar endurhæfingarþjónustu sem veitt er og fjármögnuð af hinu opinbera. Verkefnið byggir m.a. á fyrri stefnumörkun og gildandi aðgerðaáætlun, ásamt leiðbeiningum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar um áherslur í endurhæfingu til ársins 2030 (Rehabilitation Initiative 2030).
Ráðuneytið býður stofnuninni að tilnefna einn fulltrúa í rýnihóp verkefnisins og jafnframt senda fulltrúa á vinnustofu um verkefnið sem haldin verður þann 22. september n.k. á Hilton Reykjavík Nordica kl. 9-15.
Fulltrúi stofnunar verður Hrefna Frímannsdóttir og verður Elísabet Ósk Jónsdóttir iðjuþjálfi einnig fulltrúi á vinnustofu.
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 10:50.
Ásgeir Á. ritaði fundargerð.