Fundur haldinn hjá framkvæmdastjórn, fimmtudaginn 2. október 2025 kl. 9:00.
Mættir: Jóhanna F. Jóhannesdóttir, Hulda Gestsdóttir, Vilborg Lárusdóttir, Sigurður E. Sigurðsson og Ásgeir Ásgeirsson.
Dagskrá.
- Samþykkt síðustu fundargerðar.
Fundargerð frá 17. september 2025 lögð fram og samþykkt.
- Árshátíð HVE haldin 27. september.
Fjallað um fyrstu sameiginlegu árshátíð HVE sem haldin var þann 27. september á Hótel Nordica Reykjavík. Fram kom að það hafi verið 386 starfsmenn og makar sem mættu. Árshátíðin gekk mjög vel og almenn ánægja var um hátíðina. Þá kom fram að árshátíðarnefnd og fulltrúar starfsmannafélags sem komu að skipulagi hafi fengið litla þakkargjöf.
Rætt var um að hafa svona sameiginlega árshátíð allra starfsstöðva annað hvert ár, stefna á október árið 2027. Miða við fyrsta vetradag sem dæmi, enda leitir og smölun búin til sveita.
- Áfangaskýrsla stýrishóps um skipulag sjúkraflutninga á HVE.
SES fór yfir áfangaskýrslu stýrihópsins.
- Farsældarráð Vesturlands, samstarfsyfirlýsing, lagt fram.
Fram kom að Akraneskaupstaður, Borgarbyggð, Dalabyggð, Eyja- og Miklaholtshreppur, Grundarfjarðarbær, Hvalfjarðarsveit, Skorradalshreppur, Snæfellsbær og Stykkishólmsbær, Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi, Lögreglan á Vesturlandi, Sýslumaðurinn á Vesturlandi, Svæðisstöð íþróttahéraða, Heilbrigðisstofnun Vesturlands, Ungmennaráð Vesturlands, Fjölbrautaskóli Vesturlands, Fjölbrautaskóli Snæfellinga og Menntaskóli Borgarfjarðar hafa stofnað farsældarráð í samræmi við 5. gr. laga nr. 86/2021 um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna.
Farsældarráð Vesturlands er samráðsvettvangur sveitarfélaga og þjónustuaðila á svæðinu sem starfa í þágu barna og fjölskyldna þeirra. Markmiðið samstarfsins er að efla og samræma þjónustu við börn og fjölskyldur á Vesturlandi með samþættri, snemmtækri og heildstæðri nálgun. Ráðið styður við stefnumótun og samhæfingu þjónustu í samræmi við farsældarlög, leggur fram tillögur að sameiginlegum áherslum og setur fram fjögurra ára aðgerðaáætlun. Jafnframt mun farsældarráð vinna að því að styrkja þverfaglegt samstarf og tryggja að farsæld barna sé leiðarljós í stefnumótun og framkvæmd þjónustu í landshlutanum. Ráðið fundar að lágmarki tvisvar á ári.
Fulltrúi heilsugæslu í Farsældarráði Vesturlands er Aníta Eir Einarsdóttir yfirhjúkrunarfræðingur á heilsugæslustöðinni á Akranesi. Aníta hefur á bak við sig tengiliði sem eru skv. lögum um samþætta þjónustu í þágu farsældar barna á heilsugæslustöðvum HVE.
- Staða á 50 skills og innleiðing á Ziik. Sigurður Þór Sigursteinsson verkefnisstjóri kemur til fundar kl. 10:15.
SÞS mætti til fundar og fór yfir 50 skills og innleiðingu á Ziik.
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 11:55