Fundur haldinn hjá framkvæmdastjórn, miðvikudaginn 29. október 2025 kl. 9:00.
Mættir: Jóhanna F. Jóhannesdóttir, Hulda Gestsdóttir, Vilborg Lárusdóttir, Sigurður E. Sigurðsson og Ásgeir Ásgeirsson.
1. Dagskrá. Samþykkt síðustu fundargerðar
Fundargerð frá 15. október 2025 lögð fram og samþykkt.
2. Fjármál og rekstur
Fjallað um fjármál og rekstur.
3. Fjárlög 2026 – Þjónustutengd fjármögnun
Lagður fram tölvupóstur frá heilbrigðisráðuneytinu frá 21. október 2025 um þjónustutengda fjármögnun.
Það kom fram að mati heilbrigðisráðuneytis væri tímabært að hefja undirbúning á innleiðingu þjónustutengdrar fjármögnunar og HVE. Sjúkratryggingum Íslands og HVE er því falið að ganga til samninga um þjónustutengda fjármögnun sjúkrahúsþjónustu HVE.
Miðað skal við að samningar öðlist gildi árið 2026 en að fjárhagsleg uppgjör verði ekki framkvæmd fyrr en í fyrsta lagi árið 2027. Árið 2026 verði notað til innleiðingar á DRG fjármögnun þjónustu á HVE:
Heilbrigðisráðuneytið mun í framhaldi boða fulltrúa HVE á fund til að hefja undirbúning innleiðingarinnar.
4. Fundur með framkvæmdastjórum sveitarfélaga, skipan vinnuhóps og erindi til Fjárlaganefndar
Fjallað var um fund framkvæmdastjórnar með framkvæmdastjórum sveitarfélaga og skipan vinnuhóps og erindi til fjárlaganefndar.
Á fundinum var ákveðið að senda erindi til fjárlaganefndar um að skoðaðir verði möguleikar á beitingu hagrænna hvata sem tækis í byggðaþróun, svo sem að nýta ívilnunarheimildir laga um Menntasjóð námsmanna til endurgreiðslu námslána vegna tiltekinna námsgreina og svæða.
Þá var samþykkt að skipa Vilborgu Lárusdóttur og Sigurð Þór Sigursteinsson í starfshóp með SSV sem verður falið að leggja fram tilögu að því hvernig best er að vinna og setja fram kynningarefni, sem dregur fram það helsta sem þarf til að kynna hverja starfsstöð og svæðið sem hún tilheyrir.
5. Ferð sendinefndar HRN til Skandinavíu
SES fjallaði um ferð sendinefndar HRN til Skandinavíu í síðustu viku, en með sendinefndinni fóru einnig fulltrúar sjúkrahúsa og heilbrigðisstofnana sem taldi þá í heild 10 manns. Tilgangur ferðarinnar var farin með það fyrir augum að laða íslenska lækna aftur heim. Kynningin var haldin í fjórum borgum í Svíþjóð og Danmörku.
Fram kom að talið er að um 800 íslenskir læknar séu starfandi erlendis.
6. Niðurstöður úr Moodup og veikindahlutfall á árinu 2025 SÞS kemur til fundar kl 10:30
SÞS kom til fundar og fjallaði um niðurstöður úr Moodup og fór yfir veikindahlutfall 2025. Fram kom að starfsánægja HVE væri út frá Moodup metin 7,6 en almennt viðmið í heilbrigðisþjónustu er 7,7.
Þá kom fram að veikindahlutfall hjá starfsmönnum HVE væri 8,3%, sem raunar jafngildir því að um 42 starfsmenn séu frá vinnu dag hvern, jafngildi eins mánaðar á hverju ári. Ekki þarf að leita langt aftur til að sjá að þetta hlutfall var á milli 4 til 5%. Veikindafjarvistir hafa aukist gríðarlega mikið undanfarin tvö ár og þarfnast sérstakar skoðunar.
7. Persónuverndarstefna HVE – endurskoðun
JFJ fór yfir endurskoðun á persónuverndarstefnu HVE og lagði fram drög að breytingum frá persónuverndarfulltrúa HVE.
Klárað verður að fara yfir breytingarnar á næsta fundi.
8. Vinnustund – reglur um samþykktir
Rætt um Vinnustund og breytingar á aðgengi.
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 11:30
Ásgeir Á. ritaði fundargerð.