Fundur haldinn hjá framkvæmdastjórn, miðvikudaginn 5.júní  2024 kl. 9:00.

 

Mættir:          Jóhanna F. Jóhannesdóttir, Hulda Gestsdóttir, Sigurður E. Sigurðsson, Sigurður Þór Sigursteinsson.  Ásgeir Ásgeirsson fjarverandi

 

Dagskrá.

 

  1. Samþykkt síðustu fundargerðar

Fundargerð frá 29. maí 2024 lögð fram og samþykkt.

 

  1. Fjármál og rekstur

JFJ sagði frá erindi HRN sem ÁÁ er að vinna að um rekstrarstöðuna eftir fyrstu 3 mánuði ársins, skýringar á frávikum og tillögur að úrbótum ásamt útkomuspá fyrir árið 2024. Einnig rætt um fjármögnunarlíkan heilsugæslunnar og fund með HRN og SÍ sem verður eftir hádegið í dag.

 

  1. Vinnustofa um lyfjaumsýslu á heilbrigðisstofnunum, erindi frá HRN dags. 30.maí, lagt fram

Lagt fram bréf heilbrigðisráðuneytisins og landsráðs um mönnun og menntun í heilbrigðisþjónustu vegna fyrirhugaðrar vinnustofu um lyfjaumsýslu á heilbrigðisstofnunum. Tilgangur vinnustofunnar verður að skoða mögulegar breytingar á reglum og hlutverkum heilbrigðisstarfssfólks við lyfjaumsýslu á heilbrigðisstofnunum, heilsugæslu og hjúkrunarheimilum. JFJ hafði sent erindið á lyfjanefnd HVE með beiðni um að þau tilnefni fulltrúa og svari spurningum sem fram komu í bréfinu fyrir 9. júlí.

SES lýsti fögnuði með þetta erindi því brýnt sé að fara yfir og ræða þetta mál.

 

  1. Ályktun um skertra þjónustu á hjúkrunardeild HVE á Hvammstanga.

Farið var yfir og rætt um ályktun stjórnar Félags eldri borgara í Húnaþingi vestra þar sem lýst er yfir verulegum áhyggjum af skertri þjónustu á hjúkrunardeild Heilbrigðisstofnunar Vesturlands á Hvammstanga í sumar.

Í ályktuninni segir “Rúmum þar hefur verið fækkað úr 15 í 12 eða um 20% og eins eru hvíldarinnlagnir ekki í boði í sumar. Félagið skorar á stjórnendur Heilbrigðisstofnunar Vesturlands að deildin verði fullmönnuð þegar líður á sumarið þannig að ekki þurfi að skerða þjónustu frá og með haustdögum.

Eins skorar stjórn Félags eldri borgara í Húnaþingi vestra á Sveitarstjórn Húnaþings vestra að beita sér í þessu máli við heilbrigðisyfirvöld og koma í veg fyrir skerta þjónustu við aldraða og sjúka í Húnaþingi vestra. Íbúar Húnaþings vestra eru nú um 1.260 þar af eru 66 þeirra 80 ára og eldri og 132 á áttræðisaldri. Hér í Húnaþingi vestra eru 15,7 % íbúanna yfir sjötugt og því hæpið að 15 hjúkrunar- og sjúkrarými séu nægur fjöldi þegar litið er til næstu ára.”

Svar JFJ til stjórnar Félags eldri borgara í Húnaþingi vestra var eftirfarandi:

“Í lok apríl var ákveðið að verða við beiðni deildarstjóra hjúkrunardeildar HVE á Hvammstanga um að létta álagi af deildinni í sumar í ljósi mönnunar með því að miða opin rými við 12 og taka ekki hvíldarinnlagnir í sumar nema í undantekningar tilvikum og þá fyrir einstaklinga sem eru af svæðinu og hafa verið að koma reglulega undanfarið. Deildin getur hins vegar ekki tekið við hvíldarinnlögnum í sumar fyrir fólk sem búsett er á öðrum landssvæðum.

Við vonum að auglýsingar eftir starfsfólki sem vantar í stað þeirra sem nýlega hafa hætt eða eru í fæðingarorlofi skili árangri þannig að starfsemin verði með eðlilegum hætti eftir miðjan ágúst. Okkar markmið er að hafa mönnun fyrir 15 opin rými frá hausti.

Í ályktuninni sem okkur barst var bent á að verið sé að fækka rýmum á deildinni um 20%. Það er rétt þegar horft er á skráð rými. Þegar hins vegar er horft á fjölda notaðra rýma frá áramótum þá hefur notkunin verið 67% – 80%.  Meðalfjöldi inniliggjandi á deildinni árið 2023 var 11,9.

Frá áramótum hafa 10 lagst inn í hvíldarinnlagnir, þar af 2 í apríl og 1 í maí.  Í fyrra lagðist einn inn í hvíldarinnlögn yfir sumarið en fleiri innlagnir voru yfir vetrarmánuðina. Þetta eru upplýsingar sem við höfum til hliðsjónar varðandi starfsemina í sumar.

Ég vil benda á að ekki er verið að skerða bráðaþjónustu og heimahjúkrun líkt og vant er.

Metin þörf fyrir hjúkrunarrými og hvíldarinnlagnir eru 13 á svæðinu og auk þess eru tvö almenn pláss.  Á Hvammstanga er samvinna félagslegrar heimaþjónustu og heimahjúkrunar til fyrirmyndar og horft er til aukinnar þjónustu heim í verkefninu Gott að eldast sem nú er unnið að og þar er Hvammstangi í fararbroddi.”

 

  1. Upplýsingar frá Borgarnesi vegna undirbúnings samnings vegna Gott að eldast

JFJ sagði frá stöðu verkefnisins „Gott að eldast í Borgarbyggð“ og fyrirhuguðum fundi í mánuðinum með Rósu Marinósdóttur tengilið HVE í verkefninu þar.

  1. Mannauðsmál

JFJ sagði frá að gengið hafi verið frá ráðningu Garðars Jónssonar í stöðu gæðastjóra, 17 umsækjendur voru um stöðuna. Garðar er viðskiptafræðingur (cand oecon), með meistaragráðu í altækri gæðastjórnun og jafnframt með meistaragráðu í jákvæðri sálfræði. Garðar hefur áratuga reynslu af stjórnunarráðgjöf og innleiðingu gæðastjórnunarkerfa hjá stofnunum og fyrirtækjum. Í störfum sínum sem gæðastjóri hjá Matvælastofnun fólust verkefni hans m.a. í að viðhalda gæðahandbók stofnunarinnar, innleiða innra úttektakerfi á öllum sviðum starfseminnar og stjórn þess og framkvæmd. Hann er vottaður ISO 9001 Lead Auditor og auk þess viðurkenndur leiðbeinandi á slíkum námskeiðum á alþjóðavísu.  Garðar mun hefja störf 1. júlí n.k.

 

SÞS ræddi um mannauðsskýrslur í Qlik og nýtingu þeirra, þar má sjá veikindahlutfall o.fl.. Einnig var farið yfir nýjar skýrslur í Orra sem FJS er að þróa.

SÞS sagði frá og sýndi LearnCove fræðslukerfi sem HVE þarf vegna utanumhalds fyrir Vinnustaðaskóla Akademias sem HVE er að fara að innleiða.

 

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 10:30

JFJ ritaði fundargerð.