Fundur haldinn hjá framkvæmdastjórn, miðvikudaginn 6. september 2023 kl. 9:00 á Akranesi.
Mættir: Jóhanna F. Jóhannesdóttir, Þura B. Hreinsdóttir, Rósa Marinósdóttir, Sigurður Einar Sigurðsson, Þórir Bergmundsson Sigurður Þór Sigursteinsson og Ásgeir Ásgeirsson.
Dagskrá.
1. Samþykkt fundargerðar síðasta fundar.
Fundargerð frá 23. ágúst 2023 lögð fram og samþykkt.
2. Fundir vegna hjúkrunarheimilisins Silfurtúns haldnir 4. september
Fjallað um fund sem fulltrúar framkvæmdastjórnar, JFJ, ÞBH og ÁÁ, áttu með sveitarstjóra Dalabyggðar ásamt stjórn Silfurtúns þann 4. september í Búðardal. Einnig var fundað með hjúkrunarfræðingi heimilisins og starfsmönnum.
Fram kom að samþykkt var á fundinum að HVE tæki við rekstri Silfurtúns þann 1. janúar 2024 í stað 1. nóvember eins og uppsögn samnings Dalabyggðar við Sjúkratryggingar gerði ráð fyrir.
Rætt almennt um málefnið. Minnisblað fundarins frá 4. september lagt fram.
3. Staða á framkvæmdum í Stykkishólmi
JFJ fjallaði um stöðu á framkvæmdum í Stykkishólmi vegna hjúkrunarheimilisins þar. Fram kom að enn væru að koma upp vandamál sem tefðu flutning vistmanna í nýtt húsnæði, síðast átti að opna heimilið, þann 1. júní í ár, síðan 30. júní, sem frestaðist til 24. júlí, en ekki sér fyrir endann á skilum. HVE tók við rekstrinum á heimilinu þann 1. júní 2022, þá átti húsnæðið að vera tilbúið. JFJ fór yfir erindi sitt til málsaðila vegna ítrekaðra tafa á skilum.
4. Framkvæmdaáætlun húsnæðis fyrir árið 2024 og endurbætur á húsnæði á Akranesi
JFJ fór lauslega yfir framkvæmdaáætlun húsnæðis HVE fyrir árið 2024. Fór líka yfir helstu framkvæmdir og endurbætur undanfarin ár.
Þá var fjallað var um endurbætur á húsnæði á Akranesi, en fundað var með fulltrúum framkvæmdasýslunnar – ríkiseigna / FSRE í gær, 5. september. Fundinn sátu frá HVE, JFJ, ÁÁ og HBH, frá FSRE voru það Kristján Sveinlaugsson, Guðmundur Jónsson, Birna Ágústsdóttir og Sigurður Ágúst Haraldsson.
Fram koma að gróf áætlun kostnaðar væri núna um 385 m.kr. vegna lagfæringar á e-húsi, þar af 160 m.kr. vegna áætlana um flutning skrifstofu, dagdeildar og speglunaraðstöðu, eða um 42% af kostnaði. Annar kostnaður er að mestu vegna klæðningar og endurbóta utanhús ásamt viðgerðum á frárennslislögnum og vatnsinntaki í kjallara e-álmu.
Upprunalega var óskað eftir þessari framkvæmd árið 2020 og áréttað til ráðuneytis í júní árið 2021, og í desember 2022 kom erindi frá heilbrigðisráðuneyti um að þessi framkvæmd væri í forgangi. Staðan í dag er þó nánast sú hin sama og í desember 2022.
Fundarmenn sammála um að halda verkefninu til streitu, samþykkt að rýna gögn málsins að meðtöldum endurbótum á Slysadeild og taka fyrir á næsta fundi framkvæmdastjórnar. Í millitíðinni verður vinnufundur um framhaldið með fulltrúum framkvæmdastjórnar og deildarstjóra húsnæðis og tækja.
5. Undirbúningur á endurnýjun CT tækis og kynningarfundur 29. ágúst
Rætt um endurnýjun á CT tæki og kynningarfund sem haldinn var með Fastus þann 29. ágúst. ÞB fór yfir efni fundarins. Gera má ráð fyrir að tækið kosti um 130 m.kr., fram kom að kaupin þurfi að fara fram á næsta ári, þó tækið verði pantað á þessu ári. Núverandi tæki er 8 ára gamalt.
6. Samningur um Evondos lyfjaskammtara, mat á ávinningi og framhald
Umræða var um Evondos lyfjaskammtara, mat á ávinningi og hvort framhald eigi að vera á þessari þjónustu. Núverandi samningur tekur enda 30. september. Kostnaður við þessa skammtara er nú um 1,4 m.kr. á mánuði vegna 20 skammtara. Nú erum við að nota frá 7 til 11 skammtara.
ÞBH sagði að þó ávinningur væri ekki sýnilegur varðandi fjármagn þá létti þetta verulega á heimsóknum og útköllum vegna heimahjúkrunar.
Fram kom að fyrirhugaður væri fundur með fulltrúum Evondos n.k. miðvikudag, þann 13. september. Þá má skoða aðra þjónustuaðila.
Tekið nánar fyrir síðar.
7. Úttektarskýrsla EL á heilsugæslusviði og fyrirhugaður fundur v. hennar 28. september
Rætt um fyrirhugaðan fund þann 28. september n.k. með stjórnendum heilsugæslunnar.
Embætti landlæknis hefur farið fram á að fá áætlun umbóta í október og skýrslu um framgang í febrúar og mars 2024.
SES ræddi um nokkur efnisatriði skýrslunnar, sérstaklega um hvort HVE gæti ekki tekið upp hluta af heilsugáttinni sem Landspítali notar. Er mjög áríðandi í ljósi tíðra skipta lækna víða innan heilsugæslunnar hjá HVE, t.d. vegna eftirfylgni með sjúklingum eftir rannsóknir og fleira.
Þá nefndi hann hvort HVE ætti að skoða að taka upp gæðastaðla, ISO 9001, t.d. vegna heilsugæslunnar í fyrstu. Hann mun senda Veritas í Noregi fyrirspurn vegna málsins.
8. Mannauðsmál
8.1 Umræða var um samskipti framkvæmdastjórnar og starfsmanna, reglulegir fundir og fleira.
8.2 ÞBH sagði að mannekla væri nú á slysa- og speglunardeildinni, þar er starfmaður að hætta, m.a. vegna hægagangs í breytingu á húsnæði. Verið er að leita að starfsmönnum.
8.3 SÞS fjallaði um stöðu mála hjá heilbrigðisgagnadeild. Fundað verður með starfsmönnum deilarinnar þegar núverandi deildarstjóri kemur til starfa. SÞS mun skipuleggja fundinn og upplýsa heilbrigðisgagnafræðinga.
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 11:55
Ásgeir Á. ritaði fundargerð.